Útgjöld til almennrar löggæslu munu aukast um 500 milljónir króna að raungildi á næsta ári. Að auki verður svo veitt auknu framlagi til rannsóknar á kynferðisbrotum, einkum gegn börnum.

Í skýrslu sem Ögmundur Jónasson, þáverandi innanríkisráðherra, kynnti á síðastliðnu vorþingi kom fram að framlög til lögreglunnar þyrftu að hækka um 3,5 milljarða kóna, að raungildi, á næstu fjórum árum.  Það er að meðaltali um 875 milljónir á ári.

Í  ræðu sem Hanna Birna Kristjánsdóttir flutti á Alþingi á föstudag minnti hún á að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kæmi fram það markmið að efla almenna löggæslu í landinu. „Ég vil leggja áherslu á að það er gert með því að forgansraða innan þeirra málaflokka sem heyra undir ráðuneytið, sem þýðir auðvitað um leið að það er verulega hagrætt innan annarra þátta,“ sagði Hanna Birna í ræðu sinni.

Nefnd á vegum innanríkisráðuneytisins hefur í sumar unnið að því að greina störf lögreglunnar, fá skýra sýn á öryggis- og þjónustustig, mannaflaþörf og fleira þannig að hægt sé að greina rekstrargrundvöll lögreglustofnana. Á næstu dögum verður svo skipuð þverpólitísk nefnd þingmanna undir forystu Vilhjálms Árnasonar sem fær það hlutverk að gera tillögur að ráðstöfun viðbótarfjármagns sem lögreglan fær á milli embætta, verkefna og landssvæða.