Útgjöld til heilbrigðismála á Íslandi sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eru rétt fyrir ofan meðaltal ríkja Evrópusambandsins samkvæmt nýrri úttekt OECD um stöðu heilbrigðismála í Evrópu. Þá segir í úttektinni, sem nefnist Health at a Glance: Europe, að árið 2012 hafi útgjöld til heilbrigðismála á Íslandi numið um 9% af vergri landsframleiðslu á meðan meðaltal ríkja Evrópusambandsins var 8,7%. Hæsta hlutfallið er í Hollandi en þar á landi nema útgjöld til heilbrigðismála um 11,8% af vergri landsframleiðslu.

Í úttektinni kemur einnig fram að lyfjakostnaður sem hlutfall af VLF nam 1,3% árið 2012 en meðaltal ríkja ESB nam 1,5% á sama tímabili. Hæsta hlutfall lyfjakostnaðar af VLF á meðal Evrópuríkja var í Ungverjalandi eða um 2,5%.

Hátt hlutfall hjúkrunarfræðinga

Þá segir í úttekt OECD fram að fjöldi starfandi lækna á hverja þúsund íbúa á Íslandi er yfir meðaltali Evrópusambandsríkja en hér á landi voru 3,6 læknar starfandi á hverja þúsund íbúa en voru 3,4 á hverja þúsund íbúa að jafnaði á meðal Evrópusambandsríkja.

Ísland hefur 15,2 starfandi hjúkrunarfræðinga á hverja þúsund íbúa en það er þriðja hæsta hlutfallið af OECD ríkjunum. Þá eru aðeins Danir, Svíar og Svisslendingar með hærra hlutfall eða um 15 til 16,6 hjúkrunarfræðinga á hverja þúsund íbúa.

Úttekt OECD má nálgast hér .