Alþingi hefur samþykkt viðamestu breytingar á lögum um almannatryggingar, félagslega aðstoð og málefni aldraðra í áratugi. Árleg framlög ríkisins til lífeyriskerfisins aukast um 10-11 milljarða króna á ári.

Auk einföldunar og upptöku sveigjanlegri starfsloka, felast breytingarnar og aukin framlög til kerfisins í sér að elli- og örorkulífeyrisþegar sem halda einir heimili og eru með fullan búseturétt hér á landi verða tryggðar 280.000 krónur á mánuði frá 1. janúar 2017 og 300.000 á mánuði ári síðar.

Velferðarráðuneytið hefur komið upp bráðabirgðareiknivél á vef Tryggingastofnunar ríkisins þar sem hægt er að sjá hver upphæð greiðsla muni verða á árinu 2017 miðað við gefnar forsendur og núverandi skattheimtu.

„Eitt af mikilvægum markmiðum með breytingum á bótakerfinu er að gera það einfaldara, auðskiljanlegra og gegnsærra og auðvelda fólki þannig að fylgjast með réttindum sínum,“ segir í fréttatilkynningu frá Velferðarráðuneytið.