Útgjöld Íslands og Liechtenstein vegna ríkisaðstoðar hækkuðu á árinu 2014 en lækkuðu lítillega í Noregi. Heildarútgjöld EFTA-ríkjanna fóru lækkandi líkt og undanfarin ár. Stærsti hluti aðstoðar var til byggðaþróunar, en á eftir fylgdi aðstoð til umhverfisverndar og orkusparnaðar. Lítil aðstoð var bundin einstökum atvinnugreinum.

Þetta er niðustaða nýjustu samanburðarskýrslu Eftirlitsstofnunar EFTA um útgjöld til ríkisaðstoðar í EES EFTA-ríkjunum. Skýrslan fjallar um útgjöld EFTA-ríkjanna til ríkisaðstoðar fram til ársbyrjunar 2015.

Ríkisaðstoð er aðstoð sem hið opinbera veitir atvinnulífinu og er hún veitt með ýmsum hætti. Meirihluti ríkisaðstoðarinnar rennur til verkefna sem hafa fjölþætt áhrif, svo sem til verndunar náttúru, eflingar rannsókna og nýsköpunar og stuðnings við lítil og meðalstór fyrirtæki. Aðstoð til einstakra atvinnugreina hefur að mestu verið hætt.

Ísland jók útgjöld sín til ríkisaðstoðar árið 2014, einkum vegna aukinnar aðstoðar við rannsóknir, þróun, nýsköpun og menningarmál. Ísland samþykkti auk þess árið 2014 ríkisaðstoðarkerfi sem fellur undir almenna hópundanþágu. Samkvæmt skýrslunni er hlutfall ríkisaðstoðar af landsframleiðslu fremur lágt á Íslandi samanborið við ríki Evrópusambandsins og er talsvert undir meðaltali ESB-ríkja.

Samkvæmt skýrslunni dró  Noregur úr aðstoð til rannsókna, þróunar og nýsköpunar sem og til byggðaþróunar árið 2014. Heildarútgjöld Noregs til ríkisaðstoðar lækkuðu þannig þrátt fyrir aukna aðstoð til umhverfisverndar og orkusparnaðar.

Árið 2014 veitti Liechtenstein aðstoð til verkefna á sviði menningar og þjóðararfs auk þess að veita í fyrsta sinn aðstoð til orkusparnaðar. Því jukust útgjöld til ríkisaðstoðar í samanburði við fyrri ár. Hlutfall ríkisaðstoðar af landsframleiðslu var þó áfram lægst allra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu.