Tekjuafkoma hins opinbera var jákvæð um 18,8 milljarða króna á 4. ársfjórðungi 2017 að því er Hagstofan greinir frá. Tekjuafkoman allt árið var jákvæð um 38,7 milljarða en auknar tekjur komu að mestu frá stöðugleikaframlagi slitabúa bankanna. Hins vegar drógust útgjöld hins opinbera saman um 3,5% milli ára.

Þetta er mun betri niðurstaða en á sama tíma 2016 þegar afkoman var neikvæð um 88,5 milljarða króna, en tekjuhallinn á 4. ársfjórðungi 2016 skýrist öðru fremur af 105,1 milljarðs króna fjármagnstilfærslu frá ríkissjóði til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Tekjuafgangurinn nam 2,8% af landsframleiðslu ársfjórðungsins eða 6,3% af tekjum hins opinbera.

Afkoman jákvæð um 1,5% af landsframleiðslu

Ef skoðað er allt árið er áætlað að tekjuafkoma hins opinbera hafi verið jákvæð um 38,7 milljarða króna, eða 1,5% af landsframleiðslu. Til samanburðar var afkoman jákvæð um 308,4 milljarða króna árið 2016 og neikvæð um 18,2 milljarða króna árið 2015.

Tekjur hins opinbera námu um 1.109,6 milljörðum króna árið 2017. Sem hlutfall af landsframleiðslu mældust þær 43,4% samanborið við 57,8% árið 2016.

Stöðugleikaframlagið munar miklu

Miklar tekjur hins opinbera árið 2016 skýrast að mestu af 384,2 milljarða króna stöðugleikaframlagi frá slitabúum fallinna fjármálafyrirtækja. Til samanburðar námu tekjur hins opinbera 41,7% af landsframleiðslu árið 2015.

Útgjöld hins opinbera voru 1.070,9 milljarðar króna árið 2017 og drógust þau saman um 3,5% milli ára. Meðtalið í gjöldum hins opinbera árið 2016 er fjármagnstilfærsla ríkissjóðs til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins upp á 105,1 milljarð króna. Útgjöld hins opinbera voru 41,9% af landsframleiðslu samanborið við 45,2% árið 2016.

Samkvæmt áætlun út frá greiðslutölum námu peningalegar eignir hins opinbera 42,4% af landsframleiðslu í árslok 2017 meðan áætlað er að heildarskuldir hins opinbera hafi verið 74,0%. Fara þarf aftur til ársins 2007 til að finna lægra skuldahlutfall.