Útgjöld heilbrigðismála á mann hafa hækkað um rúm 10% að raunvirði síðan árið 2012 að því er kemur fram í nýrri greiningu Hagfræðideildar Landsbankans. Á sama tímabili hafa útgjöld til fræðslumála aukist um 3% á mann.

Á árinu 2017 námu útgjöld til heilbrigðis- og fræðslumála um 60% af samneyslu þjóðarinnar. Hlutur hvors málaflokks um sig var í kringum 30% af samneyslu ársins. Í fyrra var hlutfall heilbrigðismála af vergri landsframleiðslu 7,2% og hlutur fræðslumála 6,7%.

Þá segir jafnframt að sveiflur hafi verið á útgjöldum til þessara tveggja málaflokka á síðustu 20 árum. Árið 1998 hafi þau verið lægst í báðum málaflokkum eða um 480 þúsund á mann vegna heilbrigðismála og um 440 þúsund til fræðslumála. Útgjöldin hafi svo vaxið á næstu tíu árum á eftir og voru svipuð til beggja málaflokka árið 2008 eða um 570 þúsund á mann. Þau hafa síðan fallið niður í 485 þúsund fyrir báða málaflokka á árinu 2012. Síðan þá hafa útgjöld til heilbrigðismála aftur hækkað stöðugt og voru um 535 þúsund á mann í fyrra. Útgjöld til fræðslumála hækkuðu eilítið milli áranna 2013 og 2014 en hafa síðan staðið í stað.