Samanlagðar tekjur ríkis, almannatrygginga og sveitarfélaga drógust saman um 0,9% á síðasta ári, eða um 10,6 milljarða á sama tíma og útgjöld hins opinbera jukust um 78 milljarða króna, eða 6,6% að því er Hagstofa Íslands segir frá.

Þar með fór tekjuafkoma hins opinbera úr því að vera jákvæð um 22,1 milljarð króna árið 2018 í að vera neikvæð um 45,4 milljarða króna á síðasta ári, eða sem nemur 1,5% af vergri landsframleiðslu ársins.

Tekjur hins opinbera námu 1.210,7 milljörðum (eða 1,2 billjónir) króna á síðasta ári, sem nemur 40,8% landsframleiðslu, sem er lækkun frá 43,1% landsframleiðslu árið áður, en á sama tíma héldust útgjöldin hlutfallslega jafnmikil milli ára, 42,3% af landsframleiðslu eða 1.256,0 milljarðar króna á síðasta ári.

Þar af fóru nærri 727 milljarðar í samneysluna, en heilbrigðismál fengu fimmtung allra útgjalda ríkisins eða um 224 milljarða, og fræðslumál fengu litlu minna eða 204 milljarða tæpa. Félagslegar tilfærslur fengu ríflega tvöfalt meira en fjárfestingarútgjöld hins opinbera, en vaxtagjöldin hafa lækkað mikið síðustu tvö ár og eru þær nú ríflega prósentustigi minna hlutfall en fjárfestingarútgjöldin af landsframleiðslu.

Samneyslan fjórðungur landsframleiðslu

Útgjöldum hins opinbera má skipta upp í samneyslu, fjárfestingar, félagslegar tilfærslur og vaxtagjöld. Þar af eru samneysluútgjöldin langfyrirfaramest, eða 24,5% af landsframleiðslu, fjárfestingarútgjöldin námu 3,7% af landsframleiðslu, félagslegu tilfærslurnar námu 7,5% af landsframleiðslu og loks vaxtagjöldin 2,6% af landsframleiðslu.

Samneyslan samsvarar launaútgjöldum, kaupum á vöru og þjónustu og afskriftum að frádreginni sölu á vöru og þjónustu. Námu þau í heildina 726,7 milljörðum króna, sem er aukning um 8,5% milli ára. Launaútgjöldin vega þar þyngst, eða um 59%, en kostnaðurinn af þeim hækkaði um 7,6% frá árinu 2018.

Fjárfestingarútgjöldin drógust saman um 10% á árinu en ef frá eru talin áhrif gjaldfærslu vegna Hvalfjarðarganga og útgjalda vegna Vaðlaheiðargjalda jukust þau um 1% á árinu. Félagslegu tilfærslurnar jukust um 18% á árinu 2017, úr 6,8% í eins og áður segir 7,5% af landsframleiðslu, en þar vegur þyngst mikil aukning útgjalda hjá lífeyristryggingum og atvinnuleysistryggingasjóði.

Vaxtagjöldin hafa hins vegar lækkað umtalsvert síðustu tvö ár, eða um 24% frá árinu 2017, þegar þau voru 3,9% af landsframleiðslunni, en eins og áður segir fóru þau niður í 2,6% árið 2019.

Tekjur og enn frekar útgjöld almannatrygginga jukust mest

Tekjur ríkissjóðs drógust saman um sama hlutfall og heildartekjur hins opinbera, eða 0,9% árið 2019 og numu þær alls 871,6 milljörðum króna, en á sama tíma jukust tekjur sveitarfélaga um 5,4% og námu alls 381,2 milljörðum króna. Heildartekjur almannatrygginga jukust mest eða um 15,3% og námu alls 289,6 milljörðum króna á árinu 2019.

Útgjöld ríkissjóðs jukust einnig um sama hlutfall og heildarútgjöldin, eða 6,6% milli ára, en útgjöld sveitarfélaga nokkuð minna eða um 5,7%. Hins vegar jukust útgjöld almannatrygginga langmest, eða um 16,3%.

Alls námu tekjur hins opinbera af sköttum á tekjum og hagnað 530 milljörðum króna á síðasta ári, en það er stærsti einstaki tekjuliðurinn. Jukust þær um 3,6% frá fyrra ári en sem hlutfall af landsframleiðslu námu þessir skattar 17,9% á árinu 2019.

Á verðlagi hvers árs eru tekjur hins opinbera af sköttum á vöru og þjónustu á árinu 2019 nær óbreyttar frá fyrra ári. Skattar á vöru og þjónustu námu 27,1% af heildartekjum á árinu 2019, eða 11,5% af landsframleiðslu ársins.

Fimmtungur í heilbrigðismál og nærri annað eins í fræðslumál

Heilbrigðismálin eru einn stærsti útgjaldaliður í opinberum rekstri, og runnu 224,1 milljarður króna til þeirra, eða sem nemur 19,0% af heildarútgjöldum hins opinbera. Hlutfall landsframleiðslunnar sem fer til heilbrigðismála hefur aukist á hverju ári frá 2015, þegar þau námu 6,8% en eru þau nú komin í 7,5% af vergri landsframleiðslu, og hafa þau ekki mælst hærri síðan 2005.

17,2% heildarútgjalda hins opinbera, eða 203,6 milljarðar króna runnu til fræðslumála árið 2019, eða 6,9% af landsframleiðslu, en þau hafa aukist frá árinu 2016 aftur eftir nær samfellda lækkun frá árinu 2005, þegar hlutfallið nam 7,5%. Háskólastigið sjálft fékk 19,2% af heildarfræðsluútgjöldum hins opinbera, eða 1,3% af landsframleiðslu, framhaldsskólastigið tók til sín 16,4% útgjaldanna, en 10,5% fóru til leikskólastigsins.