Útgönguskattur sem gæti verið lagður á við afnám hafta gæti lækkað í þrepum eftir því sem tíminn líður. Væri slíkt í samræmi við áætlun Seðlabankans um losun gjaldeyrishafta frá 25. mars 2011. Á Vísi kemur fram að heimildir séu fyrir því að framkvæmd útgönguskatts sé í samræmi við það sem kemur fram í áætlun Seðlabankans, líkt og að framan er greint.

Seinustu daga hefur verið greint frá því í fjölmiðlum að hugmyndir séu uppi um að útgönguskatturinn verði 35%. Miðað við ofangreindar forsendur gæti sú hlutfallstala þannig til dæmis lækkað „í mánaðarlegum skrefum uns það hverfur með öllu innan ákveðins tíma (t.d. árs) frá því að gjaldið er lagt á," eins og kemur fram í áætluninni.

Á Vísi kemur fram að útgönguskattur yrði líkast til settur á með lögum.

Eignir þrotabúa Glitnis, Landsbankans og Kaupþings eru bókfærðar á 2.600 milljarða króna. Kröfuhafarnir eru 94% erlendir. Miðað við 35% útgönguskatt gætu 850 milljarðar þannig endað í ríkissjóði.