Útgreiðslur séreignarsparnaðar voru 15 ma.kr. í fyrra eða sem nemur um 1% af landsframleiðslu. Þessar útgreiðslur hafa því haft talsverð áhrif á einkaneysluna í fyrra samkvæmt Morgunkornum Íslandsbanka. Árið 2009 voru þessar greiðslur 22 ma.kr. Séreignarsparnaður jókst þó um 9% á árinu og var 314 ma.kr. um síðustu áramót. Iðgjöld lífeyrissjóðanna voru 110 ma.kr. í fyrra. Gjaldfærður lífeyrir og útgreiðslur séreignarsparnaðar nam samtals 71 ma.kr. Nettó innflæði í sjóðina var því 40 ma.kr.

Eins og fram kemur í Morgunkornum Íslandsbanka voru 2 sjóðir með jákvæða tryggingafræðilega stöðu um síðustu áramót, 8 sjóðir með halla á bilinu 0 - 5%, 10 sjóðir með halla á bilinu 5 - 10% og 4 sjóðir með halla á bilinu 10 - 15%. Hér er eingöngu átt við sjóði án bakábyrgðar ríkis og sveitarfélaga. Að sjóðum með bakábyrgð meðtöldum var tryggingafræðileg staða kerfisins í heild neikvæð um 18% um síðustu áramót. Munar þar mikið um LSR, sem er stærsti lífeyrissjóður landsins og með neikvæða stöðu upp á rúmlega 40%. Þeir sem ekki njóta opinberu sjóðanna þurfa því líklega bæði að taka á sig skerðingu á eigin réttindum og fjármögnun á a.m.k. hluta af halla baktryggðu sjóðanna.