Skúli Mogensen, forstjóri Wow air, segir aðspurður í samtali við Viðskiptablaðið að honum lítist vel á nýja ráðherraskipan en hann ræddi einnig við blaðið um ný viðskiptafarrými sem verða nú í boði hjá félaginu.

„Mér lýst bara vel á nýju ríkisstjórnina og óska henni alls hins besta, þar með talið hæstvirtan ferðamálaráðherra," segir Skúli og vísar í Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur sem Viðskiptablaðið ræddi við nýlega um gjaldtöku á ferðamannastöðum.

„Ég hef löngum verið talsmaður þess. Að sjálfsögðu á að leyfa og hvetja þá sem reka ferðamannastaði að hafa gjaldheimtu á viðkomandi stöðum, til að fjármagna viðhald og áframhaldandi uppbyggingu öllum til hagsbóta."

Allsherjarsjóður myndi úthluta eftir pólítískum vindum

Skúli segir það betra heldur en að reynt sé að setja á til að mynda komugjöld til að fá fé til viðhaldsverkefna á ferðamannastöðum.

„Já, ég held það sé ekki gott. Eitt af stærstu vandamálum þess að vera með einhvern allsherjarsjóð, er að þá ertu með enn eina ríkisstofnunina sem úthlutar til Péturs og Páls, eftir einhverjum pólitískum vindum," segir Skúli sem ekki hefur áhyggjur af því að gjaldtaka hafi áhrif á komu ferðamanna til Íslands.

„Gjaldtaka á hverjum stað fyrir sig er mjög þekkt fyrirbæri sem tíðkast alls staðar í heiminum. Ég held að enginn myndi kippa sér upp við það."