Árleg styrkveiting úr samfélagssjóðum Virðingar fór fram í sjöunda sinn þann 19. júní 2015. Samfélagssjóðir Virðingar eru tveir, AlheimsAuður og Dagsverk Virðingar.

AlheimsAuði er ætlað að hvetja konur til athafna og frumkvæðis, einkum í þróunarlöndunum. Tvö verkefni hlutu styrki AlheimsAuðar að þessu sinni:

Margrét Ingadóttir

Margrét Ingadóttir fékk styrk til að stofna nýtt barnaheimili í Nepal en hún hefur rekið þar eitt barnaheimili um nokkurt skeið.

Tau í Tógó

Tau í Tógó fékk einnig styrk og er það góðgerðarfélag sem kaupir vörur af saumastofu heimili Divine Providence í Aneho, Togo. Saumastofan er rekin af heimili fyrir munaðarlaus börn og er þannig í senn tekjulind fyrir heimilið og nokkurs konar iðnskóli fyrir elstu börnin á heimilinu og úr nágrenninu.

Dagsverkið

Dagsverk Virðingar er samfélagsverkefni starfsmanna Virðingar hf. Það felst í því að starfsmenn gefa andvirði launa sinna í einn dag á ári í verðugt innlent málefni. Ennfremur vinna allir starfsmenn sem nemur einum vinnudegi á ári í þágu góðs málefnis. Styrkir Dagsverksins skiptust í þetta sinn í sjö hluta, annars vegar peningastyrki og hins vegar vinnuframlag.

Hestamannafélagið Hörður

Hestamannafélagið Hörður, fræðslunefnd fatlaðra, peningastyrkur til að halda reiðnámskeið fyrir fólk með fötlun.

Sambýlið Smárahvammi 3

Sambýlið Smárahvammi 3, Hafnarfirði, veittur er styrkur til kaupa á heitum potti, styrkurinn er veittur í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ og fyrirtækið Trefjar sem staðsett er í Hafnarfirði.

Fjóla

Fjóla, félag fólks með samþætta sjón-og heyrnarskerðingu, peningastyrkur til að tryggja fólki aðgengi að faglærðum túlkum.

Leikskólinn Sólborg

Leikskólinn Sólborg, peningastyrkur til kaupa á rólu sem fjögur börn geta rólað sér saman í. Leikskólinn hefur þá sérstöðu að bjóða alvarlega fötluðum börnum uppeldi og nám við hlið ófatlaðra.

Rótin

Rótin- félag um málefni kvenna með áfengis – og fíknivanda, veittur er styrkur fyrir ráðstefnu með yfirskriftina konur, fíkn, áföll og meðferð.

Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs

GFF eða Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs, peningastyrkur til gera samtökunum kleift að starfrækja verkefnið LAND-NÁM. Verkefnið LAND-NÁM er samstarfsverkefnið með skólum á starfsvæði samtakanna á suðvesturhorninu en í dag eru 13 skólar í samstarfi um verkefnið.

Vinnuframlagið fer til Sambýlisins Smárahvammi 3, Hafnarfirði, en þau fá aðstoð við viðhald og vinnu við garð og hús.