*

sunnudagur, 5. desember 2021
Erlent 22. maí 2021 18:03

Úthúðar Boeing fyrir tafir á Max vélum

Ryanair tapaði 815 milljónum evra, eða um 123 milljörðum króna, á síðasta rekstrarári sem lauk í mars.

Ritstjórn
Michael O'Leary, forstjóri Ryanair
epa

Michael O‘Leary, forstjóri Ryanair, hefur úthúðað flugvélaframleiðandanum Boeing fyrir að vera „værukær“ vegna tafa á afhendingum á 737 Max flugvélunum. O‘Leary sagði í byrjun vikunnar að Boeing hafi enn ekki afhent fjórtán vélar sem írska flugfélagið átti von á í apríl og maí. Financial Times greinir frá.

Ryanair lagði inn pöntun í desember fyrir 75 vélar af Max-737 gerðinni, fyrsta stóra Max bókunin frá því að vélarnar voru kyrrsettar í mars 2019 eftir tvö mannskæð flugslys. Boeing stöðvaði afhendingar á Max vélunum í síðasta mánuði vegna vandamála í rafkerfi vélanna.

„Þetta veldur mér vonbrigðum og mér finnst þetta óásættanlegt. Ef þeir koma fram við eftirlitsaðila með sama þegjandahætti líkt og í samskiptum þeirra við viðskiptavini, þá yrði ég verulega áhyggjufullur yfir endingu flugvélarinnar,“ sagði O‘Leary á símafundi með fjárfestum eftir birtingu ársuppgjör á mánudaginn síðasta.

Ryanair tapaði 815 milljónum evra, eða um 123 milljörðum króna, á síðasta rekstrarári sem lauk í mars en félagið hafði hagnast um rúmlega einn milljarð evra árið áður.

Farþegafjöldi félagsins dróst saman um 80%, úr 149 milljónum í 28 milljónir manns. Ryanair gerir ráð fyrir að farþegafjöldinn verði einungis um 5-6 milljónir frá byrjun apríl og út júní. O‘Leary bindur þó vonir við að eftirspurn eftir flugi aukist verulega í sumar og að farþegafjöldi félagsins verði kominn í 80%-90% af farþegatölum fyrir Covid faraldurinn.

Stikkorð: Boeing Michael O'Leary Ryanair Max-737