Útibú Spron í Skeifunni og Borgartúni verða sameinuð, stöðugildum fækkað og laun lækkuð segir í tilkynningu sem félagið hefur sent út.

Útibú Spron verða sex eftir breytingarnar. Stöðugildum fækkar um 10 og verða starfsmenn Spron nú 190.  Til þess að lágmarka fjölda uppsagna var samið um lækkun starfshlutfalls við nokkra starfsmenn og yfirvinna og hlunnindi lágmörkuð.

Stefnt er að allt að 50% lækkun rekstrarkostnaðar á árinu 2009 frá fyrra ári og verið er að endurskoða alla kostnaðarliði til lækkunar en m.a. hefur verið samið um lækkun launa við þá starfsmenn sem eru með laun yfir 450 þúsund krónur.  Lækkunin mun nema á  bilinu 10-30% og fer stighækkandi eftir því sem launin eru hærri.