Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra útiloka breyta dagskrá Alþingis þannig að afgreiða megi önnur frumvörp en stjórnarskrárfrumvarpið á næstu dögum.

Þetta kom fram á blaðamannafundi með þeim Jóhönnu og Steingrími fyrir stundu.

Jóhanna sagði að fjölmörg mál biðu afgreiðslu á þingi sem þverpólitísk sátt væri um. Hins vegar væri stjórnarskrárfrumvarpið á dagsskrá nú (málið er í 2. umræðu) og sjálfstæðismenn á þingi væru að tefja málið með málþófi.

Hún sagði að stjórnarskrárfrumvarpið hefði verið rætt í um 34 klukkustundir og þar af hefðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins rætt málið í um 28 klukkustundir.

Aðspurð hvort til greina kæmi að fresta umræðu um stjórnarskrárfrumvarpið þannig að afgreiða mættu önnur frumvörp sem sátt væri um útilokuðu bæði Jóhanna og Steingrímur að þannig yrði staðið að málum. Þau sögðu mikilvægt að klára 2. umræðu um frumvarpið sem fyrst þannig að hægt yrði að snúa sér að öðrum málum er varða hag fyrirtækja og heimila.

Steingrímur J. sagði á fundinum að nauðsynlegt væri að klára 2. umræðu um stjórnarskrárfrumvarpið nú þannig að hægt væri að afgreiða önnur frumvörp og taka málið aftur upp til 3. umræðu áður en þingi væri slitið en samkvæmt lögum þarf að rjúfa þing um leið og Alþingi samþykkir breytingar á stjórnarskrá.

Aðspurð hvort stjórnarskrárfrumvarpið væri mikilvægara en frumvörp sem snúa að haga fyrirtækja og heimila sammældust þau Jóhanna og Steingrímur um að svo væri ekki en það væri þó ekki síður mikilvægara. Steingrímur bætti því við að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu litlar efnislegar athugasemdir gert við frumvarpið og furðaði sig því á andstöðu sjálfstæðismanna við afgreiðslu þess.

Þá bætti Jóhanna því við að hún skyldi með engu móti hvernig heill stjórnmálaflokkur gæti verið á móti þeim málum sem tekin væru fyrir í frumvarpinu, svo sem auðlindir í þjóðareign, beinu lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslu.