Pétur Einarsson, forstjóri Straums, útilokar ekki að kæra til yfirvalda þá ákvörðun stjórnar Hörpu að fela Landsbankanum að sjá um 18,9 milljarða króna skuldabréfaútboð Hörpu. Í kjölfar ákvörðunar stjórnarinnar sendi Straumur þeim lífeyrissjóðum og fagfjárfestum bréf, sem skrifað höfðu undir áskriftarloforð að skuldabréfum. Var þeim tilkynnt að loforðið og skuldbindingar féllu niður, en svo fylgdi í kjölfarið hörð gagnrýni á tilboðsferlið og starfsaðferðir stjórnar Hörpu.

Pétur segir í samtali við Viðskiptablaðið að innan Straums sé mikil óánægja með niðurstöðuna. „Við vorum með besta tilboðið og lögðum í það mikla vinnu. Við erum núna að fara yfir lagalega stöðu okkar með lögfræðingum.“ Pétur segir engar ákvarðanir hafa verið teknar en útilokar ekki að kæra málið til samkeppniseftirlits eða annarra yfirvalda. Að öðru leyti vill hann ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum Tölublöð hér að ofan.