Spurður að því hvaða áhrif mál hans og samráðherra hans, Ólafar Nordal og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, muni hafa á störf ríkisstjórnarinnar segir Bjarni Benediktsson í samtali við Viðskiptablaðið að ríkisstjórnin óski þess eins að sinna þeim verkefnum sem hún hafi sett á dagskrá. „Við höfum áorkað miklu og það er farið að skila sér til almennings og fyrirtækja. Allt sem dregur athygli frá þessum staðreyndum er vissulega til trafala.“

Óhætt er að segja að hann sé ekki einn um þessa skoðun, en þingmenn sem Viðskiptablaðið ræddi við eru allir á því að málið sé erfitt fyrir ríkisstjórnina og meirihlutann. Staðan hafi breyst mjög frá því sem var fyrir helgi, þegar kastljósið hafi allt beinst að forsætisráðherranum. Nú þegar ráðherrar beggja flokka sæti gagnrýni fyrir svipaða hluti horfi málið öðruvísi við.

„Hafi einhvern tímann staðið til að styðja vantraust á forsætisráðherra, og ég er ekki að segja að það hafi nokkurn tímann gert það, þá er það alveg útilokað núna,“ sagði einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins við Viðskiptablaðið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .