Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, segir í samtali við Viðskiptablaðið að hann útiloki ekki að félagið byggi eigin flugstöð, gangi áætlanir Isavia um stækkun Leifsstöðvar, sem þeir vinna nú að, ekki eftir. Hann segir ljóst að stækkunar sé þörf.

„Við höfum sagt það opinberlega að ef ekki verður um stækkun í Keflavík að ræða þá hafi það áhrif á okkar vaxtarplön,“ segir Björgólfur.

Ef plön Isavia gangi ekki eftir útilokar Björgólfur ekki að Icelandair muni byggja sína eigin flugstöð. „Slíkt gæti gerst, en það er ekki á teikniborðinu,“ segir hann.

Hann segir Isavia vinna í samráði við Icelandair um stækkunarplön og segist trúa því að ráðstafanir verði gerðar í Keflavík sem anni þörfum félagsins. Bygging eigin flugstöðvar hafi hins vegar ekki verið rædd innan stjórnar.