Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins útilokar ekki að fjórða flokkinn þurfi til að mynda ríkisstjórn. Hann sé þó ekki hrifinn af því.

Bjarni segist vongóður um að geta hafið formlegar stjórnarmyndunarviðræður á næstu dögum en hann reiknar með að upplýsa forseta Íslands um gang mála í vikunni.

Bjarni hitti Óttarr Proppé og Benedikt Jóhannesson, formenn Bjartrar framtíðar og Viðreisnar á fundi í gær þar sem talið er að þeir hafi rætt fyrirhugað stjórnarsamstarf en í viðtali við RÚV sagði hann þá hafa rætt saman oftar en einu sinni.

„Og það er er það sem ég hef verið að gera, ræða við minn flokk og hugsa út í alla kosti þess og galla að þessir flokkar næðu saman,“ segir Bjarni sem segir það hafa verið vitað að það yrði snúið að mynda ríkisstjórn með fleiri en tveimur flokkum, til að sjá fyrir öll horn.

Í Bítinu á Bylgjunni í morgun sagði Óttarr Proppé að talsverður munur væri á málflutningi þeirra í Bjartri framtíð og Sjálfstæðisflokksins og því myndi fátt benda til annars en að viðræðurnar myndu dragast á langinn.