Eins og kunnugt er standa vextir Seðlabanka Íslands nú í 13,3% og eru vextir hvergi jafn háir í Evrópu, að Tyrklandi einu undanskildu. Síðan vorið 2005 hefur Seðlabankinn hækkað vexti alls 16 sinnum til að bregðast við auknum umsvifum hagkerfisins. Greiningaraðilar höfðu búist við að svigrúm skapaðist í hagkerfinu fyrir vaxtalækkun seinni partinn á þessu ári en aukin þensla í hagkerfinu á síðustu mánuðum hefur komið í veg fyrir að svo verði.

Hagfræðingar Seðlabankans og greiningadeildanna eru á einu máli um að vaxtalækkunar sé ekki að vænta fyrr en í mars á næsta ári. Davíð Oddsson Seðlabankastjóri útilokar jafnframt ekki að til annarrar hækkunar muni koma.

"Við útilokum ekki að til frekari vaxtahækkana gæti komið áður en vaxtalækkunarferillinn gæti hafist. Við teljum að núverandi vaxtastig dugi til að halda aftur af hagkerfinu og draga úr þeirri spennu sem enn er í hagkerfinu veldur. Við gerum ekki ráð fyrir því að nauðsynlegt verði að hækka vexti en við getum þó ekki útilokað það. Ef hinsvegar vísbendingar berast sem eru hagfelldari þá munum við að sjálfsögðu einnig líta í hina áttina og lækka vexti fyrr," segir Davíð í samtali við Viðskiptablaðið.

Ingólfur Bender forstöðumaður greiningar Glitnis segist taka orð Davíðs alvarlega. "Ekki er hægt að útiloka möguleikann á því að Seðlabankinn hækki stýrivexti sína enn frekar. Mér finnst það samt ólíklegt. Líklegra finnst mér að vaxtalækkunarferillinn færist aftar," segir Ingólfur.

"Til þess að við sjáum stýrivaxtahækkun myndum við þurfa að sjá uppsveifluna í hagkerfinu halda áfram kröftuglega út allt þetta ár. Það vill Seðlabankinn alls ekki og gæti þessi þróun því haft þau áhrif að til hækkunar myndi koma. Afar snögg og mikil gengislækkun krónunnar er annað sem kynni að kalla á slíkar aðgerðir Seðlabankans," segir Ingólfur.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.