Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, útilokar ekki að hann bjóði sig aftur fram til embættis forseta í næstu kosingum.

Rætt er við Ólaf í DV í dag, en lokaspurning viðtalsins krefur hann um svör varðandi mögulegt endurframboð sitt.

Ólafur svarar því þá að niðurstaða af því taginu fáist ekki á þessari stundu, og að hann sé sífellt að hitta fólk sem hvetur hann til að halda áfram.

„Það er óneitanlega umhugsunarefni hvers vegna hugarástand hjá þjóðinni sé með þeim hætti að það sé ekki yfirgnæfandi skoðun þorra þjóðarinnar, ef ekki allrar, að ég hætti,“ segir Ólafur.

Enn fremur segir hann áhyggjuefni að svo mikil eftirspurn sé fyrir að hafa einstakling á Bessastöðum sem „ekki haggast í róti umræðunnar, bloggsins og hitans sem fylgir átökum dagsins,“ og vísar þar í sjálfan sig.

„Þar með er ég ekki að segja að ég sé eini maðurinn sem geti gegnt því hlutverki,“ bætir hann því næst við.

Ljóst er að Ólafur hvorki útilokar né staðfestir endurframboð.