Batni ekki staðan á evrusvæðinu þá getur svo farið að evrópski seðlabankinn bregðist við með frekari lækkun stýrivaxta, að sögn bankastjórans Mario Draghi. Bloomberg-fréttaveitan fjallar í dag um vaxtaákvörðun bankans í síðustu viku þegar stýrivextir voru lækkaðir um 25 punkta úr 0,75% í 0,50%. Neðar hafa þeir ekki farið í sögu evrópska seðlabankans.

Draghi sagði á blaðamannafundi í Róm á Ítalíu í dag að ástæðan fyrir vaxtalækkuninni í síðustu viku sé sú að smitáhrifa af skuldakreppunni á evrusvæðinu sé farið að gæta. Ítarlega verði farið yfir hagtölur frá evrusvæðinu á næstu vikum. Reynist þær ekki jákvæðar þá muni bankinn bregðast við. Bloomberg segir hann hafa nefnt að ekki megi útiloka að vextir verði neikvæðir. Það þýðir með öðrum orðum að bankar verði að greiða með sér þegar þeir leggja inn pening hjá evrópska seðlabankanum. Afleiðingarnar af því geta orðið neikvæðar og mun bankastjórnin skoða málið í þaula áður en vextir verða lækkaðir frekar, að sögn Draghi.