Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður VG segist ekki útiloka þann möguleika að sameina Íslandsbanka inn í Arion banka og eignast þar með um 40% í sameiginlegum banka að því er Morgunblaðið segir frá.

Hún segir þann kost þó ekki hafa verið skoðaðan sérstaklega af hálfu stjórnvalda þó hugmyndin hafi komið upp áður, en blaðið hefur fjallað nokkuð um vangaveltur um slíka sameiningu, sem sagðar eru geta aukið verðmæti eignarhlutar ríkisins með því að sameiginlegur banki yrði straumlínulagaður.

„Það hefur verið bent á að hægt sé að ná fram aukinni hagræðingu í bankakerfinu með sameiningum,“ segir Katrín
sem segir slíka sameiningu þó geta stangast á við samkeppnissjónarmið sem og sameiningin gæti reynst erfið.

„Það þyrfti að greina slíkt mjög vandlega enda getur það verið afar vandasamt fyrir ríkið að vera meðeigandi í áhættusömum fjármálarekstri. Þess utan eykur það mjög á flækjustigið að vera með bæði einkaaðila og ríkið í rekstri á einum og sama bankanum.“

Til greina komi að leyfa sameiginleg viðbrögð við þróun í fjártækni

Katrín segir að til greina komi að heimila sameiginlega innviðaþróun bankanna að undangengnu samþykki Samkeppniseftirlitsins, en mikil gerjun er í fjártækniþróun ýmis konar sem geti haft áhrif á íslensku viðskiptabankana. Segja sérfræðingar þróunina geta rýrt verðmæti eignarhluta ríkisins en Katrín segir það ekki vera áhyggjuefni þó hún taki fram að áhætta felist í bankarekstri.

„Þetta er ákveðin áhætta fyrir ríkið þó að ekkert bendi til þess núna að eignarhlutur ríkisins í bönkunum rýrni. Það er samt ekki að ástæðulausu sem við teljum skynsamlegt fyrir ríkið að vera ekki eins umsvifamikið á bankamarkaði og raun ber vitni,“ segir Katrín.

„Ríkisstjórnin er sammála um að draga verði úr eignarhaldi á bönkunum. Að okkar mati er mikilvægast að tryggja að kostnaður og áhætta almennings verði lágmörkuð.“