Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, útilokar ekki Nova verði skráð á aðalmarkað Kauphallarinnar eftir nokkur ár. Skráning sé þó ekki á döfinni alveg á næstunni.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá síðastliðinn fimmtudag hefur fjarskiptafyrirtækið Nova fest kaup á öllu hlutafé í Símafélaginu. Með kaupunum er áætlað að velta Nova fari yfir 10 milljarða króna. Það er óskrifuð regla á fjármálamarkaði að þegar velta fyrirtækis fer yfir 10 milljarða sé fyrirtækið skráningarhæft á aðalmarkað Kauphallarinnar. Fyrir eru tvö fjarskiptafélög á hlutabréfamarkaði, Síminn og Fjarskipti (Vodafone).

„Við höfum skoðað skráningu og það er einn valkostur í stöðunni,“ segir Liv við Viðskiptablaðið. „Nova fékk þó nýja eigendur á síðasta ári, Pt Capital, sem horfa meira en nokkra mánuði fram í tímann. Skráning er því ekki beint á döfinni alveg á næstunni.

Liv veltir því einnig fyrir sér hvort skráning Nova á markað sé raunhæf á þessum tímapunkti.

„Það sem mér finnst minnst spennandi við skráningu er þessi stanslausa krafa um vöxt, á sama tíma og áhætta er litin hornauga. Kauphöllin ýtir ekki mikið undir nýsköpun, sem er okkur lífsnauðsynleg. Þess vegna held ég að það hafi verið kostur fyrir Nova að vera ekki þriðja fjarskiptafélagið á markaði. Einfalt eignarhald hefur gert okkur kleift að spila öðruvísi úr hlutunum – að setjast niður með eigendunum og ákveða hversu mikla áhættu skal taka með þeirra fé í stað þess að stjórnendur ákveði áhættuna fyrir hönd dreifðs hóps hluthafa.

Í því samhengi held ég að það sé æskilegra að fara á markað þegar fyrirtæki er búið að sanna sig og er komið með rekstrargrundvöll og sterkt vörumerki. En aldrei segja aldrei. Skráning er alveg möguleiki ef maður horfir eitt ár eða þrjú ár fram í tímann,“ segir Liv.

Segðu bless við bankann

Nova fagnaði tíu ára afmæli á föstudaginn. Í tilefni af því fór fyrirtækið nýverið af stað með verkefnið Nova X. Verkefnið dregur nafn sitt af því að Nova er jafngamalt iPhone, sem kynnti iPhone X í haust. Nova X gengur út á það að setja félaginu ný markmið á þessum tímamótum og halda nýsköpun innan fyrirtækisins gangandi.

Kaup Nova á Símafélaginu, uppbygging 4,5G og VoLTE hafa allt verið liðir í Nova X. Annar liður í Nova X-verkefninu er að horfa út fyrir fjarskiptageirann. Þannig hefur Nova fjárfest umtalsvert í fjártækniforritinu Aur á síðustu árum, en í forritinu eru peningar millifærðir út af debet-eða kreditkorti inn á bankareikning í farsímanum. Forritið er samstarfsverkefni Nova og hugbúnaðarfyrirtækisins Stokkur, en Nova er meirihlutaeigandi í Aur.

„Flestir geirar eru að ganga í gegnum miklar tæknibreytingar sem eru að gjörbreyta samkeppnisumhverfinu. Sérstaklega hefur mikið verið rætt um breytingarnar sem eru að eiga sér stað á bankamarkaði. Handan við hornið eru breytingar á regluverki banka sem mun leiða til aukinnar samkeppni. Þar sjáum við tækifæri með Aur,“ segir Liv. Nova og Aur hyggjast því efna til samkeppni við viðskiptabankana og bjóða almenningi aukna fjármálaþjónustu í gegnum Aur forritið.

„Við erum byrjuð á þeirri nýjung að bjóða upp á Aur sem valmöguleika til að borga fyrir vörur og þjónustu á netinu. Þú slærð inn símanúmerið í stað kortaupplýsinga, gildistíma og öryggisnúmer.“

Á fimmtudaginn tilkynnti Nova aðra nýjung í Aur forritinu. Liv segir það vera enn frekara skref í átt að því að fólk geti kvatt bankann sinn.

Not­end­ur Aur geta frá og með deg­in­um í dag sótt um fyr­ir­fram­greitt greiðslu­kort og allt að millj­óna króna lán í farsím­an­um. Sótt er um lán í Aur og það er borgað sam­stund­is út til not­enda sem stand­ast sjálf­virkt láns­hæf­is­mat og lána­regl­ur Aur. Lán­in bera fasta og óverðtryggða vexti í allt að 24 mánuði og taka vext­ir og lán­töku­gjöld mið af kjör­um á markaði hverju sinni. Greitt er af lán­um í gegn­um Aur-appið sem er liður í því að halda kostnaði lán­taka í lág­marki.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .