Að sögn Hannesar Smárasonar, stjórnarformanns FL Group, er verið að ljúka undirbúningsvinnu félagsins vegna skráningar Icelandair í kauphöll. Þar nefndi hann áreiðanleikakannanir og skráningarlýsingar sérstaklega. "Við eigum eftir að taka endanlega ákvörðun en það er stjórn félagsins sem gerir það. Það er mjög ánægjulegt að fylgjast með því hvað hefur gengið vel með þau útboð sem hafa verið í gangi undanfarið," sagði Hannes.

Icelandair er bókfært í bókum FL Group á 8,4 milljarða króna og erlendir fjölmiðlar hafa haft eftir Hannesi að félagið telji sig eiga þar 18 milljarða í óinnleystan söluhagnað. Hannes sagði þetta ekki allskostar rétt. "Það er alveg ljóst miðað við reksturinn á félaginu, ef bæði er horft á reksturinn 2005 þar sem félagið var að skila EBITDA upp á um 5 milljarða króna og fyrstu sex mánuði ársins, þar sem EBITDA batnaði um einhver 30% milli ára og þær yfirlýsingar sem við höfum komið með, varðandi það að árið 2006 verði væntanlega eitt besta árið í rekstri félagsins, þá þykir okkur einsýnt að félagið sé töluvert meira virði en bókfært virði segir til um. Við teljum því augljóst að FL Group eigi dulin verðmæti í þessari eign upp á tugi milljarða króna. Við höfum hins vegar ekki gefið það út nákvæmlega hver við teljum að þessi tala sé heldur látið það eftir hverjum og einum að reikna það út."

Á markaði hafa verið vangaveltur um að önnur leið en skráning komi til greina, jafnvel sala á rekstri Icelandair. "Við höfum aldrei útilokað neitt. Við horfum á þetta sem hverja aðra fjárfestingu og höfum markað okkur þau skref að minnka okkar þátttöku í þessum tiltekna rekstri. Við gáfum það út þegar við sögðum frá skráningu að við værum reiðubúnir til þess að veita fyrirtækinu áfram kjölfestu en það er engin forsenda af okkar hálfu. Það þýðir að ef einhverjir aðrir sem hafa áhuga á félaginu og eru tilbúnir til þess að veita því kjölfestu, hafa áhuga á að leiða þetta verkefni og eru reiðubúnir til þess að borga það verð sem upp er sett, þá er ekkert því til fyrirstöðu af okkar hálfu. Það er hins vegar ekki á borðinu í dag."

Hannes sagði að sameining Icelandair og Sterling væri ekki til skoðunar. "Við viljum eiga Sterling áfram sem sjálfstætt félag og það starfar eftir allt öðru viðskiptamódeli en Icelandair. Okkur finnst því rétt að það félag standi á eigin fótum. Það er klárt að Sterling getur staðið eitt og sér í skráningu þó það geti það ekki nákvæmlega núna enda er þetta fyrsta heila rekstrarárið undir okkar stjórn. Það þarf að klára þá umbreytingu sem það hefur staðið í undanfarið. Viðsnúningur félagsins er gríðarlegur og kannski fáir sem gera sér grein fyrir því hve mikið tap var inni í Sterling á árinu 2005 og hve mikill viðsnúningur er að eiga sér stað á árinu 2006." Að sögn Hannesar tapaði félagið 10 milljörðum króna á síðasta ári eða um 800 milljónum danskra króna en gert er ráð fyrir jákvæðri afkomu á árinu 2006. "Það breytir því ekki að félagið þarf að búa sér til sína eigin rekstrarsögu til að vera skráningarhæft."

FL Group stendur fyrir kynningardegi fyrir markaðsaðila (e. Capital Markets Day) í Hollandi á morgun fimmtudag. Að sögn Hannesar verður einkum lögð áhersla á að kynna Icelandair, Sterling og Refresco, óskráðar eignir félagsins. Sömuleiðis verður verksmiðja Refresco í Hollandi skoðuð. Þess má geta að gengi FL Group hækkaði um 4,83% í gær og hefur hækkað um 27,6% síðustu 30 daga.