Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, hefur svarað fyrirspurn Heiðu Kristínar Helgadóttur um styrki eða niðurgreiðslur til fjölmiðla.

Spurning Heiðu var í tveimur liðum, annars vegar spurði hún hvort að skoðað hefði verið möguleikar á því að veita fjölmiðlum styrki eða niðurgreiðslur til að tryggja fjölbreytileika og koma í veg fyrir samþjöppun á fjölmiðlamarkaði, eins og sé gert víða í Evrópu.

Skoðað hafði verið árið 2009 að veita eftirstöðvum af fjármunum sem voru til í Menningarsjóði útvarspstöðva til að styrkja rannsóknarblaðamennsku og/eða gerð heimildarmynda. Af því varð ekki og hefur ekki verið hreyft við stofnun sjóðs á sviði fjölmiðlunar síðan. Ekki hefur verið tekin afstaða til þess innan ráðuneytisins enda hefur ekki verið nægt fjárhagslegt svigrúm hjá mennta- og menningarmálaráðuneyti til að að verja fé til verkefna af þessu tagi.

Seinni liður spurningar Heiðu var um hver væri skoðun ráðherra á slíkum niðurgreiðslum eða styrkjum til handa fjölmiðlum.

Í svari var tekið fram ummæli úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis en þar var hlutverk fjölmiðla skilgreint og sagt að fjölmiðlar leiki  „lykilhlutverk í lýðræðissamfélagi með því að upplýsa almenning, vera vettvangur þjóðfélagsumræðu og veita aðhald þeim öflum sem vinna gegn almannahag“. Auk tjáningarfrelsis sé fjölmiðlum veitt aukin réttindi, s.s. hvað varðar vernd heimildarmanna. Bent er á að vegna þessarar sérstöðu og áhrifavalds sem fjölmiðlar hafa hafi þeir ríkar skyldur gagnvart almenningi, og eru ólíkir öðrum fyrirtækjum og eðlilegt að um þá gildi sérstakar reglur.

Af þessum sökum er ekki hægt að útiloka þann möguleika að fjölmiðlar njóti aðgerða af hálfu ríkisvaldsins til að auðvelda þeim að rækja hlutverk sitt. Sérstakelga er þó tekið fram að áður en gripið er til aðgerða þurfi að liggja fyrir ítarlegar rannsónir og greininar á rekstarumhverfi fjölmiðla hér á landi og fjölmiðlaumhverfinu almennt.

Viðbót:

Samkvæmt upplýsingum frá aðstoðarmanni Illuga stendur ekki til að styrkja sjálfstætt rekna fjölmiðla með ríkisframlagi og hefur engin ákvörðun verið tekin um sérstaka heildarúttekt á rekstrarumhverfi fjölmiðla hér á landi í því sambandi. Aftur á móti sé nauðsynlegt að fylgjast vel með þróun fjölmiðlamarkaðarins og möguleikum fjölmiðlafyrirtæka til að sinna lýðræðislega mikilvægu hlutverki sínu. Samkvæmt lögum fylgist fjölmiðlanefnd með þessum markaði og veiti ráðherra ráðgjöf og upplýsingar um stöðu fjölmiðla á Íslandi á hverjum tíma.