Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, ítrekaði á Rás 2 í morgun að Viðreisn útiloki ríkisstjórnarmyndun með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki og sagði hann viðhorf sín ekki hafa breyst frá því fyrir kosningar. Þá hugnast honum ekki ríkisstjórnarsamstarf með því sem hann kallar „Píratabandalagið“.

Benedikt gaf til kynna í aukafréttatíma Stöðvar 2 að seta Viðreisnar í fimm flokka stjórn væri ekki óskastaða og sagðist ekki viss um að þjóðin sé að kalla eftir fimm flokka stjórn. „Þá værum við að ganga inn í Píratabandalagið. Það hugnast mér nú ekki alveg,“ svaraði Benedikt þegar hann var spurður um möguleikann á þátttöku Viðreisnar í fimm flokka ríkisstjórn.

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, fór á fund forseta Íslands á Bessastöðum klukkan þrjú í dag til að biðjast lausnar fyrir sig og ríkisstjórn sína.