*

laugardagur, 4. desember 2021
Innlent 24. október 2021 12:29

Útivistarverslanir blómstra

Samanlagður hagnaður Fjallakofans og Everest nam 231 milljónum króna á síðasta ári og jókst um 148% frá fyrra ári.

Sveinn Ólafur Melsted
Í Fjallakofanum, Ellingsen og Everest má finna útivistarfatnað og annan búnað sem nauðsynlegur er í jöklaferðina.
Aðsend mynd

Útivistarvöruverslanirnar Fjallakofinn og Everest högnuðust samanlagt um 231 milljónir króna á síðasta ári og jókst samanlagður hagnaður verslananna um 148% frá árinu 2019. Eins og þekkt er orðið jókst útivistargleði landans á faraldurstímum og má áhrifa þessa merkja á tekjuhlið verslananna þar sem samanlagðar tekjur þeirra námu ríflega 1,6 milljörðum króna og jukust um 53% frá fyrra ári.

Rekstrarhagnaður Fjallakofans og Everest fyrir afskriftir (EBITDA) nam 296 milljónum króna í fyrra og jókst um 153% milli áranna 2019 og 2020. Eignir verslananna tveggja námu alls 673 milljónum króna í fyrra, samanborið við 524 milljónir króna árið áður. Samanlagt eigið fé félaganna hækkaði að sama skapi um 124% milli ára, eða úr 170 milljónum króna í 381 milljón. Samanlagðar skuldir útivistarverslananna lækkuðu um 17%, úr 353 milljónum króna í 292 milljónir. Loks jókst handbært fé þeirra frá resktri úr 70 milljónum króna í 236 milljónir.

Fjallakofinn hagnaðist um 104 milljónir króna í fyrra og jókst hagnaðurinn um 373% frá árinu 2019. Tekjur verslunarinnar námu 927 milljónum króna og jukust um 54% frá fyrra ári. EBITDA nam 134 milljónum króna á síðasta ári og jókst um 272% frá fyrra ári.

Everest hagnaðist um 127 milljónir króna á síðasta ári og jókst hagnaðurinn um 79% frá fyrra ári. Tekjur verslunarinnar jukust um 52% milli ára, úr 462 milljónum króna árið 2019 í 704 milljónir króna árið 2020. EBITDA nam 162 milljónum króna á síðasta ári og tvöfaldaðist frá fyrra ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér