Heildarútlán Íbúðalánasjóðs jukust talsvert milli mánaða og námu rúmlega 3,6 milljörðum króna í mars. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu sjóðsins.  Tæplega 900 milljónir voru vegna leiguíbúðalána, en almenn útlán námu 2,7 milljörðum króna. Meðallán almennra lána hljóðaði upp á tæpar 9,7 milljónir króna, og hækkaði sú upphæð um 12% milli mánaða.

Heildarútlán Íbúðalánasjóðs á fyrsta ársfjórðungi námu 10,9 milljörðum og drógust saman um 2,6 milljarða frá sama fjórðungi í fyrra. Útlánin eru hins vegar meiri en á fyrsta ársfjórðungi 2006.

„Ávöxtunarkrafa íbúðabréfa lækkaði í mars um 20 - 51 punkt eftir flokkum. Á fyrsta ársfjórðungi ársins 2008 hefur  ávöxtunarkrafa íbúðabréfa lækkað um 51 - 284 punkta eftir flokkum," segir í mánaðarskýrslunni.

Jafnframt segir að veltan með íbúðabréf á markaði hafi verið rúmlega 785 milljarðar króna á fyrsta ársfjórðungi 2008, en á sama tíma í fyrra nam veltan tæplega 287 milljörðum króna.

„Veltan með íbúðabréf nam rúmlega 251 milljarði í mars en var rúmlega 86 milljarðar króna á sama tíma fyrir ári."