Í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs kemur fram að heildarútlán Íbúðalánasjóðs námu alls 3,2 milljörðum króna í ágúst.

Útlán sjóðsins dragast saman frá fyrra mánuði sem kann að skýrast að hluta til vegna þess að umsvif í ágústmánuði kunna að minnka vegna sumarleyfa en einnig virðast umsvif á fasteignamarkaði hafa minnkað vegna breyttra markaðsaðstæðna, segir í skýrslunni.

Haldið var 5. útboð íbúðabréfa þann 11. ágúst síðastliðinn. Þátttaka í útboðinu var góð og bárust tilboð að nafnverði 25,45 milljarðar króna. Íbúðalánasjóður ákvað að taka tilboðum að nafnverði 7 milljörðum króna á meðalávöxtunarkröfunni 4,3%, með þóknun. Útlánavextir sjóðsins héldust óbreyttir í kjölfarið, segir í skýrslunni.

Alls stefnir sjóðurinn á að lána 11-13 milljarða króna á 3. ársfjórðungi og gefa út íbúðabréf fyrir átta til tíu milljarða króna að nafnverði. Sjóðurinn hefur nú þegar lánað 8,2 milljarða á þriðja ársfjórðungi, sem er í takt við áætlanir, segir í skýrslunni.

Uppgreiðslu heimild Íbúðalánasjóðs þann 1. september er tæpar 900 milljónir króna. Íbúðalánasjóður nýtir sér heimild til aukaútdráttar í pappírsflokkum að verðmæti um 260 milljónir króna í september og kemur sá aukaútdráttur til greiðslu í nóvember 2006, segir í skýrslunni.

Greiðslur Íbúðalánasjóðs námu rúmum 6,2 milljörðum í ágúst. Þar af var innlausn húsbréfa tæpar 800 milljónir og greiðslur af íbúðabréfum rúmir fimm milljarðar króna.