Útlán Íbúðalánasjóðs jukust á ný í september og námu rúmum 7,5 milljörðum króna sem jafngildir um 30% aukningu frá fyrra mánuði. Þar af voru ríflega 7 milljarðar sem tilheyrðu almennum útlánum og tæplega 500 milljónir sem tilheyrðu leiguíbúðalánum. Íbúðalánasjóður lánaði því um 19,6 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi sem er ríflega 3% yfir endurskoðuðum
áætlunum, en þær gerðu ráð fyrir að ný útlán yrðu 19 milljarðar á fjórðungnum.

Samtals nema því heildarútlán Íbúðalánasjóðs um 56,6 milljörðum króna fyrstu níu mánuði ársins en sjóðurinn áætlar að heildarútlán ársins nemi 75 milljörðum króna. Verðbólga mældist yfir efri þolmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans í september og fylgdi bankinn því eftir með 75 punkta hækkun stýrivaxta í lok mánaðarins sem var við efri
mörk væntinga markaðsaðila. Í kjölfarið hefur ávöxtunarkrafa íbúðabréfa hækkað talsvert.

Íbúðalánasjóður hefur áætlað að heildarútgáfa íbúðabréfa verði 58 milljarðar króna á árinu 2005 og hefur nú þegar gefið út íbúðabréf fyrir um 40,3 milljarða króna að nafnverði. Útlánsvextir hafa hingað til fengist með því að bæta 60 punkta álagi ofan á vaxtakjör vegna útgáfu íbúðabréfa og hefur álagið haldist óbreytt frá upphafi útgáfu íbúðabréfa. Útlánavextir
Íbúðalánasjóðs eru nú 4,15% til almennings og byggingarverktaka án uppgreiðsluþóknunar, en sjóðurinn býður byggingarverktökum jafnframt upp á lán á 3,90% verðtryggðum vöxtum með uppgreiðsluþóknun.

Þann 19. september undirritaði félagsmálaráðherra reglugerð um breytingu á reglugerð um fjárhag og áhættustýringu Íbúðalánasjóðs, að fengnum umsögnum Fjármálaeftirlitsins og stjórnar Íbúðalánasjóðs. Með breytingunni hefur heimild Íbúðalánasjóðs til lánveitinga til m.a. banka og sparisjóða verið endanlega staðfest. Reglugerðin er í raun staðfesting á fjár-og áhættustýringarstefnu Íbúðalánasjóðs og hefur því ekki í för með sér neinar breytingar á fjárstýringu sjóðsins.