Heildarútlán Íbúðalánasjóðs námu tæpum 5,9 milljörðum króna í nóvembermánuði sem er um 48% aukning miðað við sama mánuð í fyrra eftir því sem segir í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs. Tæplega 800 milljónir teljast til leiguíbúðalána, sem er töluverð aukning frá fyrra mánuði, 5,1 milljarður telst til almennra útlána. Sjóðurinn hefur lánað 68,8 milljarða króna það sem af er árinu og heildarútlán eru því orðin hærri en á öllu síðasta ári. Endurskoðuð áætlun gerir ráð fyrir að útlán sjóðsins á yfirstandandi ári nemi 72,6 milljörðum króna og telur sjóðurinn líklegt að útlánin verði umfram áætlanir á árinu.

Ennfremur kemur fram í skýrslu Íbúðalánasjóðs að mikill söluþrýstingur hafi komið í kjölfar tilkynningar sjóðsins um útboð íbúðarbréfa þann 22. nóvember síðastliðinn en tilkynningin var birt þann sama dag. Söluþrýstingurinn virtist genginn til baka daginn eftir að útboðinu lauk eftir því sem kemur fram í skýrslunni. Tekið var tilboðum að nafnvirði 3,5 milljarðar í HFF44 íbúðabréf og var meðalávöxtunarkrafa tekinna tilboða 4,11%. Í kjölfarið hækkuðu útlánsvextir Íbúðalánasjóðs og bauð hann í fyrsta sinn upp á valkvæða útlánsvexti, sem eru 4,6% án uppgreiðsluákvæðis og 4,35% með uppgreiðsluákvæði. Í ákvæðinu segir að sjóðnum sé eingöngu heimilt að innheimta sérstakt uppgreiðslugjald ef útlánsvextir sjóðlins lækka, en ekkert gjald skal innheimta ef útlánsvextir sjóðsins standa í stað eða hækka.

Þá segir í skýrslunni að áhættustýringaraðgerðir Íbúðalánasjóðs í kjölfar mikilla uppgreiðslna útistandandi lána sjóðsins haustið 2004 og á yfirstandandi ári hafi tryggt fjárhagslega stöðu hans og hafi ekki brotið í bága við lög eða reglugerðir, samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar um aðdraganda og gerð lánasamninga Íbúðalánasjóðs við fjármálastofnanir vegna áhættustýringar.

Jafnframt segir í mánaðarskýrslu sjóðsins að uppgreiðsluheimild hans þann fyrsta þessa mánaðar séu 5,5 milljarðar króna og að sjóðurinn muni nýta sér heimild til aukaútdráttar í pappírsflokkum að verðmæti um 1,7 milljarða króna í desember. Sá aukaútdráttur kemur til greiðslu í febrúar 2006.

Þá veður nýtt heimild til útdráttar í húsbréfaflokkum 98/1, 98/2, 01/1 og 01/2 að heildarupphæð 2,7 milljarðar króna en sú fjárhæð kemur til greiðslu þann 15. desember 2005.