Heildarútlán Íbúðarlánasjóðs í september námu 573 milljónum króna en þar af voru 183 milljónir vegna almennra lána. Meðalfjárhæð almennu lánanna nam 8,3 milljónum króna, en þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.

Þar kemur einnig fram að vanskil útlána til einstaklinga námu um 1,8 milljörðum króna, en undirliggjandi lánavirði nemur tæpum 18 milljörðum króna. Er um að ræða 3,8% útlána sjóðsins til einstaklinga, en heildarfjöldi heimila í vanskilum eru 971.

Fastir vextir nema 4,20%

Fastir vextir útlána sjóðsins nema 4,20%, en á fyrstu níu mánuðum ársins námu útlán sjóðsins 8,9 milljörðum króna. Á sama tímabili fyrir árið 2015 námu þau 4,7 milljörðum króna, sem er aukning um 47%.

Hefur sjóðurinn nú þegar lánað þremur milljörðum króna meira en heildarútlánin voru árið 2015.

Er umfangið nú orðið sambærilegt við það sem var árið 2013, en þá námu útlán sjóðsins 8,7 milljörðum króna fyrstu níu mánuði ársins.

Hækkun lánshæfismats sjóðsins

Meðal annars sem kemur fram í skýrslunni er að þann 12. september hækkaði matsfyrirtækið Moody´s lánshæfismat Íbúðalánasjóðs úr Baa3 í baa1 með stöðugðum horfum, en það kom í kjölfar endurmati á lánshæfi ríkisins í A3.

Í mánuðinum keypti sjóðurinn jafnframt verðtryggt skuldabréf fyrir 15.999 milljónir króna af ESÍ ehf., dótturfélagi Seðlabanka Íslands.

Það mun auka jöfnuð milli eigna og skuldbindinga sjóðsins, en skuldabréfið er verðtryggt og eignavarið með veði í safni fasteignalána Íslandsbanka hf.

Uppgreiðslur fyrir 3,7 milljarða

Í september hækkaði ávöxtunarkrafa allra flokka íbúðabréfa, hækkaði HFF24 um 9 punkta, HFF34 um 6 punkta og HFF44 um 1 punkt. Nam heildarvelta íbúðabréfa 6,5 milljörðum króna í september, en í ágústmánuði nam hún 8,3 milljörðum króna.

Námu greiðslur sjóðsins í september vegna íbúðabréfa og annarra skuldbindinga 382 milljónum króna en uppgreiðslur námu 3,7 milljörðum króna.