Heildarútlán Íbúðalánasjóðs námu tæpum 1,5 milljörðum króna í ágúst en þar af voru rúmir 1,4 milljarðar króna vegna almennra lána. Uppgreiðslur námu um 1,3 milljörðum króna. Þetta kemur fram í skýrslu sjóðsins fyrir ágúst en hingað til á þessu ári hafa uppgreiðslur verið meiri en sem nemur útlánum sjóðsins. Ágúst er einungis annar mánuðurinn á þessu ári þar sem útlán eru hærri en uppgreiðslur.

Til samanburðar námu almenn útlán í ágúst 2011 um 2,3 milljörðum króna. Útlán í ágúst á þessu ári miðað við í fyrra eru því um 35% lægri. Meðalútlán almennra lána voru um 10,7 milljónir króna í ágúst. Heildarfjárhæð almennra lána fyrstu 8 mánuði ársins er samtals um 8,3 milljarðar króna en var um 15,9 milljarðar króna á sama tímabili 2011.