Heildarútlán Íbúðalánasjóðs í desember námu 4,9 milljörðum króna og jukust um 200 milljónir frá fyrri mánuði, segir greiningardeild Glitnis.

?Það eru nokkru meiri útlán en gert var ráð fyrir því yfirleitt er desember rólegur mánuður í fasteignaviðskiptum. Útlán á fjórða ársfjórðungi námu 15,8 milljörðum króna sem er aðeins yfir 12-14 milljörðum króna áætlun sjóðsins.

Heildarútlán Íbúðalánasjóðs á árinu 2006 námu 49,5 milljörðum króna sem er litlu meiri en 43-49 milljarða króna ársáætlun sjóðsins hljóðaði uppá. Tölur um útlán bankanna til íbúðakaupa í desember liggja ekki enn fyrir,? segir greiningardeildin.