Alls lánaði Íbúðalánasjóður um 8 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi, sem er um 15% minna en á fyrsta fjórðungi ársins.

Heildarútlán fyrstu sex mánuði ársins voru því um 17,4 milljarðar, en það eru um 30% minni útlán en á fyrstu sex mánuðum ársins 2008.

Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs en heildarútlán sjóðsins jukust þó um tæp 3,6% í júní frá fyrri mánuði.

Alls námu heildarútlán Íbúðalánasjóðs rúmlega 2,6 milljörðum króna í júní. Þar af voru rúmir 1,9 milljarðar vegna almennra lána og rúmar 700 milljónir vegna leiguíbúðalána.

Þá kemur fram að meðalútlán almennra lána voru um 10,6 milljónir króna í júní, sem er aukning um 11% frá fyrri mánuði.

Tæpir 2 milljarðar af nýjum íbúðabréfum

Þann 16. júní hélt Íbúðalánasjóður fjórða útboð íbúðabréfa á árinu 2009. Alls bárust tilboð fyrir 12,195 milljarða að nafnverði. Ákveðið var að taka tilboðum að nafnverði 1,925 milljarða króna í HFF34 á meðalávöxtunarkröfunni 4,13% án þóknunar og 1,575 milljarða króna í HFF44 á meðalávöxtunarkröfunni 4,13% án þóknunar.

Útlánavextir sjóðsins lækkuðu um 0,1% í kjölfarið. Nýir vextir íbúðalána eru því 4,60% með uppgreiðsluákvæði og 5,10% án uppgreiðsluákvæðis.

Heildarvelta íbúðabréfa í júní nam tæplega 75,3 milljörðum, sem er 17% meiri velta en í fyrri mánuði. Heildarvelta bréfanna nemur 407,8 milljörðum það sem af er árinu 2009.