Útlán þriggja stærstu bankanna til viðskiptavina jukust um 1,4% á síðasta ári. Yfir sama tímabil hækkaði vísitala neysluverðs um 4,2% og hagvöxtur á liðnu ári mældist 1,6% samkvæmt bráðabirgðamælingu Hagstofunnar. Hvort sem leiðrétt er fyrir verðlagsáhrifum eða vexti hagkerfisins þá drógust útlán bankanna saman að raunvirði. Kemur þetta fram í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.

Samdrátturinn mældist um 3% leiðrétt fyrir verðbólgu og heildarútlán í árslok 2012 mældust 105% af vergri landsframleiðslu þess árs. Til samanburðar voru útlán bankanna í lok árs 2011 samtals 108% af vergri landsframleiðslu ársins.

Í Markaðspunktunum segir að meðal skýringa á því að útlánasafn bankakerfisins skrapp saman megi nefna að enn séu lítil og meðalstór fyrirtæki afar skuldsett og því lítið svigrúm til frekari skuldsetningar. Fyrirtæki hafi greitt upp skuldir auk þess sem færst hafi í vöxt hjá stærri fyrirtækjum að fara í eigin skuldabréfaútgáfu við endurfjármögnun lána. Þá hægði verulega á vexti hagkerfisins sem dró e.t.v. úr hvata einhverra fyrirtækja til frekari skuldsetningar. Loks hafði virðisrýrnun útlána áhrif á stærð safnsins.

Stærstur hluti útlána bankanna eru til einstaklinga en þar á eftir koma útlán til sjávarútvegs, fasteignafélaga og verslunar og þjónustu.