„Nokkrir erlendir aðilar hafa sýnt því áhuga að reka verslun í Leifsstöð, samkvæmt upplýsingum frá Friðþóri Eydal, upplýsingafulltrúa Isavia. Fram kom í fréttatilkynningu frá Isavia snemma á árinu að samningstími rekstraraðila í brottfararsal flugstöðvarinnar rennur út í árslok og efndi Isavia til forvals á verslunar- og veitingarekstri. Dótturfélag Isavia, Fríhöfnin, mun sem fyrr hafa með höndum sölu á hefðbundnum tollfrjálsum varningi á borð við áfengi, tóbak, sælgæti og ilm- og snyrtivörur.

Forvalið nær eingöngu til sérverslana og veitingastaða en ekki vöruflokka Fríhafnarinnar. Friðþór Eydal segir í samtali við Viðskiptablaðið að unnið sé úr þeim umsóknum sem komu úr forvalinu en áætlað er að því verki ljúki í haust.