Áhugi erlendra fjárfesta á að setja upp stórfellda starfsemi sem tengist olíuvinnslu eða vöruflutningum hefur aukist. Er þetta haft eftir Þorsteini Steinssyni, sveitarstjóra á Vopnafirði, á vef Ríkisútvarpsins . Kínverjar eru meðal þeirra sem hafa sett sig í samband við hreppinn.

Segir þar að Ísland sé á margan hátt vel staðsett þegar vöruflutningar frá Kyrrahafi til Atlantshafs um Norður-Íshafsleiðina verða að veruleika og sveitarstjórnir á norðausturhorni landsins hafa látið skipuleggja landssvæði með stórri umskipunarhöfn.

Svipaða sögu er að segja um þjónustu við olíuleit á svokölluðu Drekasvæði. Þorsteinn staðfestir að ýmsir fjárfestar hafi á undanförnum misserum sett sig í samband við hreppinn í tengslum við stórfellda uppbyggingu á svæðinu.