Daniel Chartier, prófessor við Quebec-háskólanní Kanada, hefur skrifað bók um ímynd Íslands í erlendum fjölmiðlum eftir hrunið. Bókin byggir á viðamikilli rannsókn sem hann réðst í og nær yfir þúsundir greina í tugum dagblaða og tímarita úr flestöllum heimshlutum.

Á meðal þeirra eru Financial Times, Le Monde, Economist, Washington Post, The Australian, BBC, The Guardian og Aftenposten. Niðurstaða hans er sláandi. Ímynd Íslands eins og hún birtist í erlendum fjölmiðlum hefur farið úr því að vera mjög jákvæð í það að vera gjaldþrota ríki fullt af spillingu og fjárglæframönnum.

„Hrunið sem reið yfir Ísland haustið 2008 var án nokkurs vafa mikill fjölmiðlaviðburður. Þegar það reis sem hæst í október og nóvember það ár birtu þau erlendu dagblöð, sem rannsökuð voru í bókinni, meira en 900 blaðagreinar um Ísland,“ segir Daniel Chartier, höfundur bókarinnar The End of Iceland´s Innocence: The Image of Iceland in the Foreign Media during the Crisis.

Hann segir magn skrifanna um Ísland eitt og sér gefa góða vísbendingu um þá gríðarlega miklu umræðu sem átti sér stað á þessum tíma og laskaði ímynd landsins verulega. Aðspurður um hvaða niðurstöðu hann hafi komist að í rannsókn sinni segir Chartier að ótvírætt sé að fjölmiðlaumfjöllun hafi gríðarleg áhrif á orðspor þjóðar. „Í tilfelli Íslands var ríkjandi fréttaflutningur erlendra fjölmiðla sá að þar hafi átt sér stað algjör viðsnúningur. Á örfáum dögum fór þjóðin frá því að vera öfunduð í það að vera niðurlægð.

Á meðan á rannsókn minni stóð rann það skýrt upp fyrir mér að á bak við fjármálakreppuna sem reið yfir Ísland lágu aðrar dýpri kreppur. Þær snúast um siðferði, hroka, samskiptaleysi, ábyrgðarleysi, niðurlægingu, samskipti við umheiminn, fullveldi og umræður um framtíð svona lítils ríkis með „samtvinnaðan fjármálageira“, eins og það var kallað í Financial Times.

Því var velt upp í fjölmiðlum hvort of mikil tengsl milli stjórnmálamanna, athafnamanna og framkvæmdastjóra hefðu eyðilagt undirstöður hins „efnahagslega kraftaverks“ sem átti sér stað á Íslandi. Dagblöð í London og New York lýstu íslenska fjármálakerfinu eins og einni stórri fjölskyldu sem lét ótrúlega mikið fjármagn flæða sín á milli og leiddi það til samfélags afskiptaleysis (e. laissez-faire society). Við þetta kerfi bættist svo pólitísk greiðastarfsemi sem skapaði hættu fyrir þjóðina alla.“

_____________________________

Í Viðskiptablaðinu í dag er að finna ítarlegt viðtal við Daniel Chartier. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .