Erlendir aðilar keyptu hlutabréf í kauphöll Nasdaq Iceland fyrir um 700-800 milljónir króna í gær, en velta á hlutabréfamarkaði var óvenjumikil í gær. Nam hún 2.814 milljónum króna og var veltan met í viðskiptum með bréf Icelandair Group, eða fyrir 782,4 milljónir króna.

Það sem af er degi hefur velta á hlutabréfamarkaði náð rúmum 2,5 milljörðum króna og líkt og í gær er veltan mest með bréf Icelandair, eða um 480 milljónir. Ekki hefur fengist staðfest að erlendir aðilar séu einnig að kaupa hlutabréf í dag, en viðmælendur Viðskiptablaðsins segja þó að sjá megi svipaðar hreyfingar í viðskiptum og í gær og því sé ekki ólíklegt að útlendingar séu einnig að kaupa bréf í dag.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er þetta í fyrsta sinn í nokkur ár sem erlendir aðilar kaupa hlutabréf í einhverjum mæli í íslensku kauphöllinni.