Á mánudag eru á gjalddaga ríkisvíxlar að fjárhæð 9,8 milljarðar króna og við það lækkar heildarstaða útistandandi ríkisvíxla aðeins á milli ágúst og september, eða úr 47,3 milljörðum í 45,4 milljarða, að því er segir í Morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um af hvaða tagi kaupendur ríkisvíxlanna voru í gær, en greiningardeildin telur afar líklegt að erlendir aðilar hafi verið býsna fyrirferðamiklir í víxlaútboðinu líkt og svo oft áður. Samkvæmt Markaðsupplýsingum sem Lánamál sendu frá sér á mánudag voru erlendir aðilar stórtækir kaupendur ríkisvíxla í ágúst og keyptu yfir 80% af seldu magni. Áttu þeir ríkisvíxla fyrir 33,1 milljarða að nafnverði í lok ágúst, eða sem nemur 70% af útistandandi víxlum.