„Kontaktarnir úti eru að taka við sér,“ segir Þröstur Bragason teiknimyndagerðarmaður sem vinnur að gerð stuttrar teiknimyndar um ævintýri tuskudýranna Flopalongs. Hann safnar fjárframlögum til myndagerðarinnar á fjáröflunarsíðunni Karolina Fund og óskar 5.000 evra, jafnvirði tæpra 856 þúsund króna. Þröstur vinnur einn að gerð myndarinnar. Gangi hún vel vonast Þröstur til að sjónvarpsþættir verði gerðir í kjölfarið. Nú er búið að safna tæpum 2.400 evrum sem jafngildir 47% af fjármögnun verkefnisins. Um 25 dagar eru eftir af fjársöfnuninni.

Tuskudýr með ofurkrafta

Söguþráður Flopalongs er á þá lund að þetta er hópur dýra sem einu sinni var í einkadýragarði á eyju í eigu illmennisins Gergs. Sá er svo illur að hann vill sösla undir sig allar náttúruauðlindi sem hann getur og skilur eftir sig sviðna jörð. Fram kemur á söfnunarsíðu Flopalong að dýrin sem teiknimyndin á að fjalla um eru bæði ofurhetjur og í útrýmingarhættu. Það er Bandaríkjamaðurinn John Robert Greene sem skapaði Flopalongs. Komododrekinn Igbot sleppur úr prísundinni hjá Gerg. Hann kemst í tæri við dularfullan loftstein. Hann öðlast ofurkraft úr lofteininum sem hann deilir með hinum Flopalongunum og hjálpar hann þeim að sleppa líka.

Þröstur kynntist Greene þegar hann var skiptinemi í Bandaríkjunum fyrir um 20 árum. „Við höfum stefnt að því að gera svona verkefni lengi. Þetta small loksins saman og við ákváðum að kýla á þetta,“ segir Þröstur í samtali við VB.is.