Starfandi erlendum ríkisborgurum fjölgaði á íslenskum vinnumarkaði á árunum 1998 til 2005 úr 3.400 í 9.010, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands.

Hlutfall starfandi með erlendan ríkisborgararétt hefur aukist jafnt og þétt úr 2,3% árið 1998 í 5,5% árið 2005.
Hagstofan segir að í fyrra hafi flestir starfandi erlendir ríkisborgarar verið pólskir, eða 1.970. Næst á eftir koma danskir, filippseyskir, portúgalskir og þýskir ríkisborgarar, eða rúmlega 500 frá hverju landi.

Árið 2005 voru fleiri starfandi karlar en konur með erlent ríksfang, en konurnar voru fleiri í upphafi tímabilsins. Árið 2005 voru 5.350 karlar en 3.650 konur en árið 1998 voru 1.530 karlar og 1.870 konur.
Á síðsta ári störfuðu 4.420 erlendir ríkisborgarar á höfuðborgarsvæðinu en 4.340 utan þess. Utan höfuðborgarsvæðisins störfuðu flestir erlendir ríkisborgarar á Austurlandi eða 1.790.

Af öllum starfandi árið 2005 störfuðu flestir við þjónustugreinar (72%), því næst iðngreinar (23%) og fæstir við frumvinnslugreinar (5%).

Þegar aðeins er litið til þeirra sem hafa erlent ríkisfang þá störfuðu nær jafnmargir í þjónustugreinum (48%) og iðngreinum (47%) en fæstir í frumvinnslugreinum (5%).

Flestir erlendir ríkisborgarar innan iðngreinanna störfuðu við mannvirkjagerð í fyrr, eða 1.890 og hafði þeim fjölgað um 1.770 frá 1998. Mun fleiri störfuðu við mannvirkjagerð utan höfuðborgarsvæðisins en innan þess og voru þeir flestir á Austurlandi, eða 1.170. Erlendum ríkisborgurum sem störfuðu við mannvirkjagerð á Austurlandi fjölgaði umtalsvert frá 1998 en þá voru þeir innan við 10.