Leigulistinn er leigumiðlun sem gerir fólki og fyrirtækjum kleift að finna sér rétta íbúð til leigu. Fyrirtækið hefur verið starfrækt síðan árið 1995 og fagnar því 21 árs afmæli sínu á árinu. Allt að 51 löggildur leigumiðlari er til húsa og þjónustar á höfuðborgarsvæðinu, en um land allt eru rétt yfir 60 löggildar leigumiðlanir starfræktar.

Leigulistinn starfar þannig að hver og einn leigusali getur skráð eign sína til miðlunarinnar að kostnaðarlausu, en hver sá sem er að leita sér að íbúð til leigu greiðir svo aðgangseyri til þess að fá að fylgjast með í ákveðinn tíma. Þannig getur sá sem leitar að íbúð haft eftirlit með og vaktað hvort íbúðin sem hann leitar að sé laus og opin til leigu.

Mikil hreyfing á leigumarkaðnum

Hjá Leigulistanum starfa fimm manns, en Berglind Eva Pétursdóttir starfar við að halda listanum sjálfum ferskum og uppfærðum. Hún skráir inn eignir og heldur utan um allar hreyfingar innan hans. Berglind segir góða hreyfingu vera á leigumarkaðnum, þrátt fyrir að verðlag á dýrari og stærri eignum á leigu sé að staðna. „Það er mikið að gera á leigumarkaðnum. Það eru smávægilegar breytingar að eiga sér stað. Leiguverðið er að staðna,“ segir Berglind. „Ég held að það sé af völdum þess að fólk hefur einfaldlega ekki efni á að taka dýrar eignir á leigu – eignir á borð við íbúðir með fjögur eða fleiri herbergi. Það er þó mjög góð hreyfing á tveggja herbergja, þriggja herbergja og stúdíó íbúðum.“

Þjónusta fyrirtæki og stofnanir

Leigulistinn veitir stofnunum og fyrirtækjum einnig þjónustu, en mörg stór fyrirtæki á borð við Eimskip, Íslenska erfðagreiningu og ÍAV hafa nýtt sér þjónustuna. Auk þess gegnir fyrirtækið mikilvægu hlutverki fyrir fólk sem er á biðlistum fyrir félagsíbúðir hjá Reykjavíkurborg.

„Mörg fyrirtæki eru að fá starfsfólk erlendis frá og eru þá að leita að íbúðum fyrir það starfsfólk. Þá veitum við einnig Reykjavíkurborg þjónustu hvað félags- íbúðir varðar, en sumt fólk er að bíða eftir félagsíbúðum eða miða sig við húsaleigubætur. Þá leiðbeinum við þessu fólki með- an það bíður og er að leita að íbúð.“

Nánar er fjallað um málið í aukablaði um fasteignamarkaðinn sem fylgdi síðast með Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.