Útlit er fyrir 1% hækkun vísitölu neysluverðs á milli ágúst og september, segir greiningardeild Glitnis.

?Verðbólga mun mælast 8,0% gangi spáin eftir og minnkar því úr 8,6% eins og hún er núna. Minnkandi verðbólga verður að teljast góð tíðindi fyrir íslenskt efnahagslíf og þegar litið er til þess að gengi krónunnar er hækkandi, íbúðamarkaður kólnandi og annarra þátta sem benda til þess að úr vexti eftirspurnar í hagkerfinu sé að draga má segja að seðlabankamenn geti andað aðeins léttar," segir greiningardeildin.

Hún telur líklegt að verðbólgan hafi náð hámarki og spáir að Seðlabankinn nái 2,5% verðbólgumarkmiði sínu í lok næsta árs.