Útlit er fyrir óbreytta vísitölu neysluverðs á milli október og nóvember, segir greiningardeild Glitnis. Hagstofan mun birta vísitölu neysluverðs föstudaginn 10. nóvember.

?Eldsneytisverð hefur lækkað í kjölfar verðlækkunar á heimsmarkaði og gæti haldið því áfram, ekki síst í ljósi þess að gengi krónunnar hefur hækkað talsvert að undanförnu. Útlit er fyrir að íbúðaverð standi í stað á milli mánaða en hærri vextir hafa þó áhrif til hækkunar vísitölunnar.

Í spánni er miðað við nær óbreytt matvöruverð í nóvember en lesa má ólíkar vísbendingar um verðþróun úr hræringum á markaðinum. Niðurstaða spárinnar gæti þannig hæglega breyst með sveiflum í matvöruverði á næstu vikum," segir greiningardeildin.

Hún segir að verðbólgan muni mælast 7,3% gangi spáin eftir og eykst úr 7,2% í október.

?Verðbólgan verður því enn fjarri 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Flest bendir þó til þess að verðbólgan hafi þegar náð hámarki og að úr henni dragi hratt á næstunni.
Reiknum við með að verðbólgan mælist 6,7% yfir þetta ár og aðeins 1,8% yfir næsta ár," segir greiningardeildin.