Útlit er fyrir 0,1% hækkun vísitölu neysluverðs á milli nóvember og desember, segir greiningardeild Glitnis. Gangi spáin eftir mun verðbólgan mælast 7,0% í desember samanborið við 7,3% í nóvember. Verðbólgumarkmið Seðlabankans er 2,5%.

?Eldsneytisverð hefur lækkað frá síðustu mánaðarmótum en í ljósi gengisþróunar krónunnar má búast við að minnsta kosti hluti þeirrar verðlækkunar gangi til baka.

Heimsmarkaðsverð á eldsneyti hefur þó verið fremur stöðugt að undanförnu. Hér er því reiknað með minniháttar hækkun á eldsneyti á næstu dögum en að heildaráhrifin séu þó áfram til lækkunar,? segir greiningardeildin.

Hún segir að íbúðaverð lækki eða stendur í stað um þessar mundir en aukinn vaxtakostnaður vegur á móti og hefur áhrif til hækkunar vísitölunnar.

?Flest bendir til þess að íbúðakostnaður aukist nú lítilsháttar þrátt fyrir verðlækkun og hafi þannig óveruleg áhrif til hækkunar vísitölunnar í desember,? segir greiningardeildin.

Matvöruverð hefur farið lækkandi undanfarna mánuði þrátt fyrir aukinn launakostnað. En nú spáir greiningardeildin minniháttar hækkun á matvöruverði í desember.

Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs 12. desember.