Greiningardeild Glitnis hefur endurskoðað verðbólguspá fyrir september og er nú talið að útlit sé fyrir 0,8% hækkun vísitölu neysluverðs á milli ágúst og september.

Verðbólga mun mælast 7,8% gangi spáin eftir og minnkar því verulega, en verðbólga er nú 8,6%, segir greiningardeildin.

Eldsneytisverð hefur lækkað frá síðustu mælingu Hagstofunnar og gæti lækkað enn frekar á næstu dögum í ljósi gengishækkunar krónunnar og lækkandi heimsmarkaðsverðs að undanförnu, segir greiningardeildin.

Útsölur ganga til baka um þessar mundir og reiknar greiningardeildin með aðeins minni áhrifum á vísitöluna en raunin varð í fyrra. Tiltæk gögn gefa til kynna að íbúðakostnaður, eins og hann er mældur í vísitölunni, muni reynast hærri en í fyrri mánuði en þá lækkaði hann lítillega vegna verðlækkunar á íbúðamarkaði, segir greiningardeildin.

Velta hefur aukist nokkuð á ný á íbúðamarkaði eftir að hafa verið í lágmarki síðustu mánuði og spennandi verður að fylgjast með verðþróun á næstu mánuðum. Flest bendir til þess að verðbólgan hafi þegar náð hámarki og muni minnka á næstu mánuðum, segir greiningardeildin.

Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs næst þann 12. september.