Efnahagslífið hefur rétt úr kútnum eftir hrunið og er nú útlit fyrir að á bilinu 3,5% til 4% hagvöxtur mælist á síðasta ári. Gangi það eftir verður hagvöxtur hvergi jafn mikill og hér í Evrópu, að sögn Steingríms J. Sigfússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Steingrímur skrifar grein í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins þar sem hann fer yfir endurreisn efnahagslífsins.

Ráðherrann segir staðreyndirnar sýna að svartsýnisspámenn hafi haft rangt fyrir sér. „Forustumenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks ásamt fleirum ónefndum sungu fram eftir öllu síðastliðnu ári þann söng að hér væri allt í frosti og kyrrstöðu og enginn bati í augsýn. Staðreyndirnar hafa nú borið slíkan málflutning ofurliði,“ skrifar Steingrímur og bætir við að þegar þingmennirnir Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason gengu úr þingflokki Vinstri grænna voru rökin m.a. þau að fjárlög ársins 2011 myndu hafa það neikvæð áhrif á efnahagslífið að hagvöxtur yrði vel undir einu prósentustigi. Hann muni væntanlega verða 5-6 falt hærri miðað við fyrirliggjandi gögn.

Grein Steingríms