Útlit er fyrir að íslenska krónan styrkist um 8%-9% frá ársbyrjun 2022 og út árið 2024. Gangi það eftir verði raungengið miðað við hlutfallslegt verðlag svipað og á árinu 2018. Þetta kemur fram í nýrri þjóðhagsspá greiningardeildar Íslandsbanka. Bent er á að krónan hafi þegar styrkst um tæp 3% á síðasta ári.

Greiningardeildin segir að viðskiptaafgangur sé í kortunum, vextir á uppleið, erlend staða þjóðarbúsins sé sterk, vaxtarhorfur góðar og verðbréfaeign erlendra aðila fremur lítil í sögulegu samhengi.

Sjá einnig: Frekari styrking í kortunum

Á móti vegur hins vegar að erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða munu líklega aukast talsvert næstu misserin og hugsanlega muni Seðlabankinn kaupa gjaldeyri í forða sinn á ný ef styrkingin verður hröð á tilteknu tímabili. Því sé ógerningur að segja til um hversu hröð og hvenær styrkingin verður.

Spá meiri hagvexti í ár en í fyrra

Greiningardeildin spáir að hagvöxtur verði um 4,7% í ár en til samanburðar áætlar hún að hagvöxtur á síðasta ári hafi verið um 4,1%. Þennan vöxt megi rekja til þróttmikils vaxtar í útflutningi, sér í lagi ferðaþjónustu og sjávarútvegs. Einnig ýtir aukin einkaneysla undir hagvöxtinn í ár. Spáð er að hagvöxtur verði 3,2% árið 2023 og 2,6% árið 2024.

Um 700 þúsund ferðamenn komu til Íslands á liðnu ári sem er um þriðjungur af fjöldanum árið 2019. Íslandsbanki telur þó að ferðavilji fólks sé umtalsverður og spáir því að 1,1-1,2 milljónir ferðamanna sæki landið í ár. Á næsta ári verði þeir 1,5 milljónir og 1,7 milljónir árið 2024.

Atvinnuleysi hjaðnaði hratt á síðasta ári en það mældist hæst í 11,6% af vinnuafli, að undanskildu starfsfólki í hlutabótaleiðinni, en var komið niður í 4,9% í lok árs. Þrátt fyrir að efnahagsaðgerðir stjórnvalda fyrir vinnumarkaðinn hafi runnið sitt skeið að mestu gerir Íslandsbanki ráð fyrir að atvinnuleysi haldi áfram að hjaðna og verði að meðaltali 4,5% í ár, 3,7% á næsta ári og 3,6% árið 2024.

Vísað er til niðurstöður könnunar Gallup fyrir Seðlabankann og SA þar sem fram kom að nær 40% stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins telji skort vera á starfsfólki hjá sínu fyrirtæki. Helst séu það fyrirtæki í byggingarstarfsemi og ferðaþjónustu sem sjá fram á fjölgun starfsfólks á næstu sex mánuðum.

Stýrivextir verði 3,25% í lok árs

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækkaði stýrivexti úr 0,75% í 2,0% á síðasta ári. Greining Íslandsbanka spáir því að stýrivextir hækki áfram og verði komnir í 3,25% í lok þessa árs og 4,0% í árslok 2024 „sem er að mati okkar er nálægt jafnvægisgildi þeirra“. Nánar tiltekið telur greiningardeildin að jafnvægisgildi þeirra séu um 4,5% í tilfelli nafnvaxta en 1,3% hvað raunvexti varðar.

Þá segir að svo virðist sem talsverð stýrivaxtahækkun sé þegar verðlögð inn í langtímavexti á mörkuðum. Langtíma grunnvextir eru nú 4,3% en í kringum 0,7% sé miðað við raunvexti. Greiningardeildin spáir því að hækkun langtímavaxta verði hófleg ef stýrivextir fari ekki upp fyrir 4,0% á spátímanum.

„Langtíma verðbólguvæntingar eru þó enn í þokkalegu samræmi við verðbólgumarkmiðið. Áhrif peningastefnunnar á heimili og fyrirtæki virðast einnig vera orðin mun snarpari en áður auk þess sem horfur eru á hjaðnandi verðbólgu og hægari eftirspurnarvexti þegar lengra líður á spátímann. Seðlabankinn þarf því síður að grípa til stórfelldrar hækkunar vaxta til að hafa tilætluð áhrif á efnahagslífið og verðbólguhorfur til meðallangs tíma.“

Verðbólga var yfir 4,0% verðbólgumarkmiði Seðlabankans á öllu síðasta ári og mældist síðast 5,1% fyrir nóvembermánuð. Greiningardeildin segir að verðbólga hafi reynst þrálátari en við var búist. Þar spilar inn í mikil innlend eftirspurn, sem leiddi m.a. til íbúðaverðshækkana, auk hækkandi verðlags erlendis. Líkur eru taldar á að það hægi á hækkunum íbúðaverðs þegar líða tekur á árið og að meðaltali hækki íbúðaverð um tæp 8% á árinu.

Fram kemur að horfur séu á að verðbólga hjaðni jafnt og þétt á þessu ári, bæði hérlendis sem og erlendis. Verðbólga muni þó verða nokkuð yfir verðbólgumarkmiðinu megnið af árinu og mælast að jafnaði 4,3%, samkvæmt spá Íslandsbanka. Hún verði svo 2,5% að jafnaði árið 20203 og 2,7% árið 2024.